mánudagur, janúar 16, 2006

Ferðasagan

Ljúft að sofa í sínu eigin rúmi í nótt. Ég þori að veðja að enginn nenni að lesa svona langa færslu.

En já ferðasaga! Ég stóð í þeirri trú að ég þyrfti ekki að sitja nema í 14 tíma í rútu til að komast á áfangastað en neiiii bætið við 13 tíma. Mætti upp í skóla á tilsettum óguðlegum tíma eftir að hafa ekkert sofið því mér fannst ekki taka því þar sem ég sat við bjórdrykkju ásamt Sellu og Hildi. Þynnka og 27 tímar í langferðarbifreið fer ekkert sérlega vel saman. Ég svaf mest megnis. Þegar á áfangastað var komið máttum við gjöra svo vel að fara í skíðafötin inni á einhverjum subbubar og halda upp í fjall að renna okkur. Í eftirmiðdaginn fengum við svo að fara í íbúðir okkar. Fínasta íbúð sem ég deildi ásamt 9 öðrum. Fyrsta kvöldið var bara rólegt þar sem fólk var bara að jafna sig eftir ferðina.

Annar dagur uppgötvaði ég að ég kynni enn að standa á skíðum en fyrri dagurinn hafði ekki einkennst af þeim hæfileikum. Datt ekki nema tvisvar alla ferðina en gerði það náttúrulega með stæl. Um kvöldið héldum ég og Lina á djammið í stórbænum Vars. Fórum á eitthvað diskótek þar sem við vorum eina kvenfólkið á staðnum.... vorum frekar vinsælar. Skriðum heim einhvern tíman um morguninn vel hífaðar.

Næstu dagar voru allir mjög svipaðir skíði....bjór...snemma að hátta... vaknað snemma og haldið aftur á skíði.

Eitt kveldið var svokallað barslalom.... barsvig! Sem sagt einn drykkur á hverjum bar og svo haldið á næsta. Ég held við höfum náð að heimsækja alla barina í þessum smábæ. Hrebbna var náttúrulega last one standing.... kemur ekki á óvart þar sem Danir eru ekki sérlega skemmtilegir djammarar. Já gleymdi að tilkynna það ég var eini útlendingurinn í öllum hópnum. Þannig ég fékk óverdóse af tungumálum sem ég skil ekki, danska, franska og þýska eru ekkert sérlega sterk tungumál hjá mér. Danskan hins vegar eftir vikuna er orðin helvíti öflug og ég barasta farin að syngja með hástöfum Kim Larsen og öðrum dönskum söngvurum.

En já mjög skemmtileg ferð, kynntist fullt af fólki og lærði dönsku.

Á þessu ári hef ég komið til Íslands, Danmerkur, Þýskalands, Sviss og Frakklands... geri aðrir betur.

Engin ummæli: